Það er magakveisa í gangi á heimilinu. Barnið slapp þó, og heldur vonandi áfram að sleppa við þetta. Ég held og ég vona að þetta sé ekki þessi skæða sem ég hef heyrt fólk lýsa. Þetta byrjaði bara í gærkvöldi en það kæmi mér ekki á óvart ef við yrðum þokkaleg á morgun. Ég er að taka mér veikindaleyfi frá skrifum, hef ekki alveg einbeitinguna í þau en langaði samt aðeins upp úr sófanum. Ég sit við eldhúsborðið og er að klára ostaslaufu, sem er það eina sem ég hef borðað í dag.
Skrifin ganga eftir áætlun. Ég held ég endi í um 60.000 orðum öðru hvoru megin við áramót. Pestir setja auðvitað strik í reikninginn en ég hef ekki miklar áhyggjur. Ég er á frekar þægilegu stigi í skrifunum. Ég veit hvað þarf að gerast, hvaða persónur þurfa að fara hvert og gera hvað. Þetta er núna bara spurning um nokkrar senur í viðbót. Þetta er smá eins og að vera að leggja kapal og sjá að hann mun ganga upp. Eftir einhverjar vikur get ég sagst hafa skrifað skáldsögu, þó ferlið sé ekki næstum því búið. Ég veit svo sem ekkert hversu vel mér mun takast endurskrifin en ég ætla að leyfa mér að vona að þetta verði tilbúið fyrir næsta haust.
Ég kláraði að lesa Run for the Hills eftir Kevin Wilson í baði áðan. Hún var skemmtileg. Ég tók hana á bókasafni um daginn þegar ég var að leita að einhverju sem ég þekkti ekki. Á kápunni er fyrri bók höfundar lofuð af gagnrýnendum og ég get vel hugsað mér að lesa hana við tækifæri. Sagan fylgir hálfsystkinum sem uppgötva tilvist hvers annars og ferðast þverrt yfir bandaríkin í leit að fleiri hálfsystkinum og föður þeirra sem hvarf og stofnaði nýja fjölskyldu trekk í trekk. Mér líður smá eins og allar bækur fjalli nú um mannshvörf, en það er ákveðinn kjarni í bókinni sem ég er að skrifa. Sennilega er það aðallega eins og þegar maður lærir nýtt orð og sér það síðan út um allt, af því að athyglin er á því.

Agnes var að kalla fram úr stofu til þess að spyrja hvort ég væri að skrifa um sig. Hún er búin að vera að horfa á breskan bökunarþátt, kannski til þess að borða með augunum fyrst lystin er enn lítil. Kannski bara því það er notalegt og það skiptir litlu þó maður dotti á milli.
Við vorum að tala um að þetta verða sjöttu jólin síðan við byrjuðum saman. Sleik- og sambandsafmælið okkar er 22. febrúar, svo fyrstu jólin vorum við búin að vera saman um dágóðan tíma. Í febrúar verðum við búin að vera saman í sjö ár en foreldrar í rúm fjögur. Það er eitthvað skrítið við það. Barnlausi tíminn virðist lengri í minningunni. Hann var grunnurinn að því sem hefur komið á eftir. Mér finnst tímaskynið mitt svo sem almennt vera fljótandi. Ég held við séum bæði heppin með hvort annað. Og ég er stoltur af Agnesi, aftur og aftur.
Það fer að koma að því að ég þurfi að klæða mig í úlpuna til þess að hjóla eftir barninu í leikskólann. Ég er þakklátur fyrir nagladekk og poka sem festast á bögglabera. Og lífið almennt, þótt mér sé illt í maganum.