Ég var að senda inn listamannalaunaumsókn. Hef verið að taka mér pásu frá handritinu til þess skrifa umsóknina. Það var svo sem ágætis tækifæri til þess að hugsa um verkefnið frá aðeins öðru sjónarhorni. Rifja upp kafla sem ég hef ekki skoðað í einhverja mánuði. Í orðum talið held ég að ég sé svona hálfnaður. Kominn með um 30.000 orð og ætla að reyna að nálgast 60.000 fyrir árslok. Svo er ætlunin að hefja næsta ár, vonandi á launum, með því að demba mér í endurskrif. Ég var að telja þetta saman og mér sýnist ég vera að skrifa um 2800 orð á viku. Sú tala fer að mestu eftir því hvort ég sé á einhverjum dagvöktum í vinnunni. Þegar ég er á kvöldvöktum eða á frívakt get ég notað leikskólatímann til þess að skrifa.
Við Agnes gistum á hóteli á Snæfellsnesi um helgina. Svona á milli óveðra og fengum frábært veður. Við fórum eftir mat í göngutúr í myrkri og horfðum í stjörnurnar. Ég man ekki eftir því að hafa áður gert það í eins mikilli hlýju. Hótelgistingin var jólagjöf frá mér til okkar. Þetta var fyrsta barnlausa ferðalagið okkar saman síðan við urðum foreldrar fyrir að verða fjórum árum. Nú erum við búin að vera lengur saman sem foreldrar en við vorum barnlaus. Það hljómar undarlega finnst mér. En ég hef svo sem aldrei verið með gott skynbragð á tímann. Og kannski er fyrsta árið saman alltaf mun lengra en það sjöunda. Það var gott að fá tækifæri til þess að eyða svona miklum tíma saman, bara tvö, smá frí frá praktískum úrlausnarefnum og tími til þess að njóta þess einfaldlega að vera saman. Meira að segja bílferðin var skemmtileg.
Ég byrjaði á því núna í haust að gera æfingar til þess að styrkja mig. Ég fann mér prógramm sem krefðist þess ekki að ég keypti neitt, og tæki ekki of mikinn tíma á dag. Þetta eru allt kunnuglegar æfingar, armbeygjur og skvött og svona. Og upphýfingar sem ég þarf að fara á svokallaðan hreystivöll hér í nágrenninu til þess að æfa. Ég ræð enn ekki við hefðbundnar upphýfingar, þarf að standa skáhallt og hýfa mig uppréttann. Ég hef svo sem aldrei haft áhuga á líkamsrækt en finnst það ágætt markmið að ná að gera upphýfingar. Ég finn strax að ég er að styrkjast, sem er kannski nauðsynlegt þegar barnið fer að nálgast 18 kíló.
Nýlega hefur umræða um listamannalaun verið að ganga, þar sem einhver á vegum samtaka skattgreiðenda höfðu reiknað hve mikil laun nokkrir höfundar hefður fengið fyrir hverja bók og hverja blaðsíðu síðustu áratugina. Það sem vakti helst athygli mína var hve lágar upphæðirnar væru í raun, sérstaklega þar sem aðeins voru sýndir þeir höfundar sem höfðu fengið hvað mest fyrir hverja blaðsíðu. Það að einn og einn höfundur fái nokkra tugi þúsunda á tilbúna blaðsíðu, eins og hún birtist í bók, er voða lítið. Ég hugsa að fyrir flesta höfunda sé blaðsíða að minnsta kosti dagsverk. Og það í verktakalaun.