Eins og hefð er fyrir varði ég áramótunum, þ.e. dögunum fyrir og eftir gamlársdag, í að hugsa minn gang. Það vill svo til að barnið mitt á afmæli nálægt áramótum svo nýju ári fylgir líka nýtt aldursár, og það er talsvert annað að eiga tveggja ára barn en að eiga þriggja ára. Ég varði síðasta ári að miklu leyti í að safna í orkubúskapinn. Hlutavinnan sem á sér oft stað utan leikskólatíma gaf mér mikinn frítíma sem skilaði sér í litlu öðru en betri hvíld og aukinni ánægju með lífið og tilveruna. Og í fjölmörgum spiluðum tölvuleikjum.
Ég nýtti tímamótin í að búa til svokallað áramótabingó sem Agnes hafði séð annað fólk gera á netinu. Karólína vinkona okkar var með okkur um áramótin og hvert okkar fyllti út bingóspjald með ýmsu sem við vildum gera á árinu. Hugmyndin er að þetta séu alls konar hlutir og að maður ranki ekki við sér í mars búinn að klúðra áramótaheitinu og geti allt eins haldið áfram að rúlla niður eftir árinu í klúðurmóki. Eða þannig túlkaði ég það. Í byrjun þessarar viku merkti ég inn í fyrsta reitinn á spjaldinu mínu. Það markmið var að lesa bækurnar sem ég keypti fyrir jól. Þær voru þrjár eða fimm, eftir því hvernig talið er, fjórar til sex ef ég tel með Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl sem mér fannst ég þurfa að klára áður en ég byrjaði á hinum.
Bækurnar eru sem sagt Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson, Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur og Mold er bara mold eftir Almar Stein Atlason. Kannski ágætt að það komi fram að þetta eru allt vinir mínir (Eirík þekki ég minna, þó ég hafi stuttlega verið í ljóðamálunum á Starafugli hans og svona). Blessunarlega fannst mér þær allar frábærar og þarf hvorki að ljúga né að hitta vini mína vandræðalegur í kaffi til að hrauna yfir áralanga vinnu þeirra.
Ég var að sjá að Náttúrulögmálin eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og verðskuldar það hiklaust. Hún fjallar um það sem gerist á og eftir prestastefnu á Ísafirði, á fyrri hluta 20. aldar, eftir að guð lætur sjá sig uppi í fjalli. Sagan fer um víðan völl og sögumaður segir frá mörgum persónum sem eru meira og minna á fylleríi þrátt fyrir almennt áfengisbann.
Breiðþotur skoðar áhrif þess þegar hópur hakkara framkvæmir stóran gagnaleka, þar sem umtalsvert magn samskipta sem á sér stað í gegnum netið er gert opinbert, í tilraun til þess að þrýsta á samfélagið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Friðsemd er persónudrifin saga um Friðsemd sem er þýðandi erótískra glæpasafna eftir nýlátina vinkonu sína. Henni finnst dauðsfallið dularfullt og sækir innblástur í sögurnar um Advokat Larssen til þess að rannsaka málið
Mold er bara mold er svo um það hvernig Begga Sól, fötluð stelpa sem hefur flakkað milli stofnanna, gerist fjöldamorðingi.
Mér fannst skemmtilegt hvernig fyrstu þrjár bækurnar sem ég kláraði á árinu (ég byrjaði á Náttúrulögmálunum á síðasta ári) töluðu saman. Þetta eru þorpssögur þar sem náttúruhamfarir spila stórt hlutverk, hvort sem þau eru af manna- eða guðavöldum. Séu þær lesnar í sömu röð og ég las þær virka Breiðþotur sem ágætis brú á milli hinna. Hún er á milli þeim í lengd, í fjarlægð sjónarhornsins og tíma. Þannig fór ég frá fortíðarsögu Eiríks sem fylgir heilu þorpi frá sjónarhorni rannsakanda sem vísar í dagbókarfærslur og bréf máli sínu til stuðunings, að sögumanni Tómasar sem fylgir nokkrum lykilpersónum og loks að sjónarhorni Friðsemdar sem er persónulegt og hlýtt.
Mold er bara mold sker sig svo talsvert úr. Hún er lengst þessarra fjögurra, raunar svo að ákveðið var að skipta henni niður í þrjú bindi. Það eru engar stórfelldar náttúruhamfarir þó Begga og hennar aðstoðarfólk fari vissulega hamförum. Sennilega er þetta sú skáldsaga sem ég hef lesið sem er með sem flestum morðum. Ég hef unnið sem aðstoðamaður fyrir fatlað fólk í bráðum átta ár og kannaðist við margt í lýsingum á línolíudúkum og starfsmannasamskiptum sem snúast meira um uppvask en um aðstoðina. Blessunarlega hafa þó engin verið myrt á minni vakt. Svo ég viti að minnsta kosti.
Það sem þessar fjórar bækur eiga sameiginlegt er hvað þær eru fyndnar, allar kannski tragikómískar, svo manni langar að hlæja með þeim og faðma þær á víxl. Breiðþotur er lúmskari í sinni fyndni. Það kæmi mér a.m.k. ekkert á óvart ef húmorinn færi framhjá lesendum í spennunni. Nema ég sé bara í ruglinu. Það er svolítið heimilislegt að lesa bækur vina sinna. Heyra rödd þeirra í höfðinu og hugsa með sér að þarna hafi Brynja sko fundist hún vera sniðugt (og haft alveg rétt fyrir sér) eða kannast við brandara úr stofunni í Álfheimum hjá Almari. Brosa yfir raðnúmeri skips hjá Tómasi.
Annars er af mér allt gott að frétta. Fyrir utan þetta stutta lestrarmarkmið setti ég mér ýmislegt fleira. Ég ætla að reyna að fara til Viðeyjar í sumar. Horfa á 10 Hong Kong myndir (búinn með eina). Og skrifa að minnsta kosti 20.000 orð af skáldskap, sem var kannski fullhóflegt markmið, miðað við að ég held ég nái upp í 7.000 á morgun, og komst ekki af stað fyrr en í febrúar.