Ég hef lítið skrifað síðustu mánuði og ekkert hingað. Að vera pabbi frá morgni til kvölds flesta daga sem ég var ekki í vinnunni á kvöldin var alveg nóg. Dagar sem byrjuðu á að vakna með barni klukkan sjö og vera með því þangað til ég fór að vinna frá fjögur til ellefu vitandi skildu lítið eftir af orku til þess að hugsa á skipulagðan hátt.
Um miðjan september byrjaði barnið í leikskóla og er í fyrsta sinn til fjögur í dag. Ég hef að mestu leyti eytt tímanum í að slaka á og þrífa og taka til. Það er margt sem sest á hakann þegar maður býr með smábarni sem krefst og á skilið athygli og ummönnun allt að því stöðugt. Ég hef hugsað um að setja mér eitt stærra húsverk á viku, eins og að koma skipulagi á búrskápinn, en hef að mestu látið nægja að halda eilífðarverkunum á lofti. Enda mikilvægara að hvíla mig.
Ég held að ég hafi komist frekar nálægt því að keyra mig í þrot á síðustu mánuðum. Mögulega er ég í byrjunarstigum kulnunar og þess vegna þarf hvíld að vera ofarlega á forgangslistanum.
Eins og mörgu einhverfu fólki upplifi ég minni tengsl við kyn mitt en óeinhverft fólk virðist almennt gera. Ég á erfitt með að skilja hvað sé meint með því að líða karlmannlega. Ekki að mér líði illa með að vera karlmaður. Svolítið eins og mér líður ekki á nokkurn hátt með að vera með skóstærð 43. Mér varð hugsað til þessa í síðustu viku þegar það gerðist það tvisvar með stuttu millibili að upplifði mig pabbalegan á sterkan hátt. Í annað skiptið þegar ég hitti vin minn þegar við vorum báðir að sækja á sama leikskóla og hann talaði síðar um að ég hefði litið sannfærandi út sem pabbi. Hitt skiptið var það nágrannakona sem ég hef aldrei talað við fór að spjalla þegar við vorum að labba í sömu átt. Hún talaði um að hún sæi mig oft labba með barnið og spurði hvernig ég þorði að svæfa það úti, hún var sjálf með minna barn og vildi gjarnan prufa. Ég útskýrði barnapíutæki fyrir henni, nokkuð sem hún kannaðist ekki við en sagðist strax ætla að fara að skoða.
Ég fékk eitthvað út úr þessu. Einhverja tegund af gleði sem ég held að snúist (a.m.k. að einhverju leyti) um að vera skynjaður sem faðir og tekinn alvarlega sem slíkur. Sem foreldri. Oft finnst mér eins og fólk sem ég hitti með börn úti á rólóvöllum eða í svipuðum rýmum geri smá ráð fyrir að ég sé svolítill kjáni. Eins og að það sé partur af pabbahlutverkinu að vita ekki alveg hvað þú ert að gera. Það getur verið niðurdrepandi þegar það er nánast það eina sem maður gerir.
Ég held að þessi gleði sé mögulega lík þeirri gleði sem sumir kynbræðra mína upplifa þegar þeir sjá að öðrum finnast þeir karlmannlegir. Að þeim sé að takast vel að uppfylla hlutverk sitt.