Mér finnst ég staddur í eilífri hringrás. Groundhog day. Er að skríða upp úr veikindum. Ég hef ekki farið yfir eldri færslur en mér líður eins og þær byrji allar á þessu skriði upp úr veikindum. Endurtekningar með tilbrigðum. Á vissan hátt er janúar búinn að halda áfram inn í lok febrúar og svo mars. Það hefur verið nístingskuldi. En nú skín sólin. Mælirinn í kringum frostmark, en ekki langt fyrir neðan, og því er barnið úti að sofa í fyrsta skipti í ég veit ekki hvað marga daga. Ég steig út í fyrsta skipti í viku (fyrir utan þegar ég kom bílstólnum upp í afabíl og svo ömmubíl um helgina) og það var svo ljúft að kíkja ofan í kerruna eftir fimm mínútna göngu og sjá lítil augnlok. Ljúft að losna við allt að klukkutíma samningaviðræður og vagg og söng og allt hitt.
Eins og stundum áður þegar ég hef sest til að skrifa þetta blogg er ég lokaður inni í tilvonandi barnaherbergi á meðan Bottinn Anna ryksugar gólfin. Enda erfitt að ná ryksugurennsli meðan barnið sefur inni. Fyrir utan að snýta mér og reyna að hafa ofan af fyrir barni sem skilur ekki af hverju það sé ekki hægt að fara út hef ég síðustu daga vanið komur mínar á Völu, leikskólakerfið sem Reykjavíkurborg notar. Þau eru byrjuð að bjóða börnum pláss fyrir haustið. Síðustu tvo daga hef ég fengið að fylgjast með biðlistatölunni á draumaleikskólanum fara úr 127 niður í 106. Með þessu áframhaldi ættum við að fá pláss eftir tíu daga, ef við gefum okkur að hraðinn haldist jafn og nóg pláss séu. Sem er heilmikið til að gefa sér, ég viðurkenni það.
Ég leyfi mér þó að láta mig dreyma um að vakna með barninu í haust. Gefa því að borða og klæða það í rólegheitum áður en ég labba með því þessar þrjár mínútur sem tekur að labba að næsta leikskóla. Þá færi ég aftur heim, leggði mig kannski á slæmum degi, annars hellti ég mér upp á kaffi. Skrifaði í klukkutíma og læsi í annan. Hreyfði mig í hálftíma. Þá væri eiginlegu dagsverki lokið og ég gæti snúið mér að heimilisstörfum, búðarferð ef þyrfti, meiri lestri eða skrifum ef mig klæjaði í það. Afslöppun. Stundum byrjaði ég á kvöldmatarundirbúningi áður en ég sótti barnið aftur.
Ég fæ gæsahúð við að hugsa um þetta. Auðvitað væru ekki allir dagar svona. Eflaust yrðum við veik af öllum heimsins leikskólapestum. Marga af dögunum þyrfti ég að mæta til vinnu um fjögur, í stað þess að sækja barnið.
En ég þarf ekki alla daga. Sumir dagar eru alveg nóg. Svo ég leyfi mér að láta mig dreyma. Og held áfram að kíkja á Völu.