Það hefur ekki verið sérstakt veður. Áður hafði það minni áhrif á mig. Mér fannst oft bara hressandi að fara út að labba í roki og rigningu. Og líka bara notalegt að taka letidag heima og hlusta á veðrið úti. Elda kannski eitthvað gott í rólegheitunum. Nú þýðir vonskuveður almennt bara heimadag með barninu. Dag sem teygir sig út í hið endalausa þegar það er ekki einu sinni hægt, með góðu móti, að slíta hann í sundur með göngutúr. Eftirfarandi ljóðlínur úr Álfheimum hafa stundum ómað í huganum síðusta vikur, þá daga sem ég er aðeins verr sofinn en ég þyrfti að vera.

Ljóðlínur: suma daga / bara vél / sem breytir framtíð í fortíð

Það er jú kannski grunnhlutverk mitt sem faðir smábarns, að breyta framtíð í fortíð stórslysalaust. Auðvitað er markmiðið alltaf að barninu líði vel, að það fái vel að borða, að það sé um leið öruggt og í stöðu til þess að prufa sig áfram með líkamlega og andlega getu sem er stöðugt að aukast. Að það læri og þroskist. Að það finni fyrir hlýju og kærleika.

En suma daga er veðrið vonlaust og hausinn í vansvefta óreiðu og markmiðið ekki annað en að klára daginn stórslysalaust. Að breyta svöngu barni í satt. Þreyttu í sofandi. Framtíð í fortíð.

Og samt sem áður heldur barnið áfram að þroskast og læra og brosa og hlæja. Og því virðist alveg sama hvernig veðrið er, svo lengi sem það er ekki él í andlitið.

Annars skín sólin núna og ég held við röltum á inniróló þegar barnið vaknar.