Lífið er hægt og bítandi að taka á sig mynd á nýju ári. Eins og áður segir enduðum við fjölskyldan síðasta ár, og byrjuðum þetta, í veikindum. Um leið og við vorum farin að hressast hófst skólinn hjá Agnesi og það varð óvenju kalt. Barnið sem hafði í veikindum sínum (og okkar) sleppt daglegum göngutúrum og útilúrum hélt því áfram að leggja sig inni, enda ótækt að setja það út í margra stiga frosti. Í stað korters göngutúrs var undanfari lúrs því að minnsta kosti klukkutími í intensívum svæfingaraðgerðum með söng og göngu fram og aftur ganginum og ég veit ekki hvað og hvað. Nú er hitinn yfir frostmarki og barnið úti í kósí fíling og ég inni við lyklaborðið.
Á dögunum byrjaði einhver alt-right (einhver sem hefur eiginlega bara fasískar skoðanir en kallar sig ekki fasista því það er taktískt slæmt) nafnleysingi með hlaðvarp sem kennir sig við norræna karlmennsku. Ég hef ekki lyst á því borga til þess að hlusta á útskýringar hans á því í hverju hún felst, en miðað við twitter reikning hans er hún innflutningur á bandarískum goðsögnum um hefðbundna karlmennsku á óskilgreindri gullöld þegar annað fólk var ekki með svona mikið af réttindum.
Þetta fékk mig til þess að velta fyrir mér hvort og hvernig væri hægt að búa til hlaðvarp, eða blogg eða hvað það nú væri, með titil sem vísaði í sérnorræna karlmennsku án þess að það væri þessi fasistafnykur af því. Það fyrsta sem kom í hugann var grjónagrautur. Helst svo þykkur að maður verði saddur eftir eina skál. Og maður er ég, sem barn, búinn að fylgjast með pabba mínum hræra í grautnum í óratíma. Það er karlmannleg iðja, að standa við pott og hræra í þykknandi grjónum. Og hún er norræn (þó grjónin séu það auðvitað ekki). Inn í þetta ímyndaða hlaðvarp væri líka hægt að koma inn umfjöllun um feðraorlof eins og það er á norðurlöndum. Um það að labba með barnið sitt í barnavagni yfir snjó og klaka.
Auðvitað er samt ekkert sérkarlmannlegt við það að elda grjónagraut. Það er bara einn af réttunum sem pabbi minn eldaði oft. Enda eru ómeðvitaðar skoðanir mínar um karlmennsku að miklu leyti byggðar á því sem pabbi gerði þegar ég var barn. Mér finnst því karlmannlegra að elda grjónagraut en kjúkling, karlmannlegra að sjá um þvottinn en að taka til í ísskápnum og svo framvegis og svo framvegis.
Þetta fær mig svo til þess að leiða hugann að því hvernig karlmennska mín mun birtast barninu mínu í framtíðinni. Og það er fyrst og fremst undir mér komið.
Annars koma þessar vangaveltur um grjónagraut sennilega aðalega til því ég var að prufa mig áfram með að búa til grjónagraut í þrýstingssuðupotti. Það er hentugt og útrýmir að mestu þessu karlmannlega hræriveseni.