Nýtt ár, nýtt covid

Við fjölskyldan erum búin að vera lasin síðan um kvöldið 28. desember. Við héldum þá um daginn upp á eins árs afmæli barnsins sem var mjög gaman en svo fór það að verða slappt um kvöldið og við fullorðnu veiktumst í framhaldinu. Ég fékk svo jákvætt úr heimaprófi í dag og bíð nú eftir að fá út úr pcr, sem er svo sem bara formsatriði. Agnes fékk líka jákvætt og fleiri sem voru í þessu barnaafmæli. Þetta er kannski einna hættulegasti dagurinn til að eiga afmæli um þessar mundir. Allir gestirnir búin að vera í sitthvorum jólaboðum og nægur tími til þess að leyfa veirum að grassera. Sennilegast höfum við byrjað á annarri pest og nú að fá þessa frægu ofan í.

Kúltúrbarnið

Mér hefur þótt forvitnilegt að fylgjast með umræðunni um kúltúrbörnin undanfarið. Ef þið hafið farið á mis við hana getið þið náð framvindunni um það bil með því að fylgja eftirfarandi hlekkjaslóð.

Ég ætla mér ekki að koma með mitt take á þessu máli, enda engin vöntun á slíku. Mér finnst þetta fyrst og fremst áhugavert, fyrir mig persónulega, vegna þess að ég er að ala upp mitt eigið kúltúrbarn. Þetta er nokkuð sem ég hef verið að velta fyrir mér síðan við vissum fyrst að Agnes væri ólétt. Við grínuðumst snemma með það að barnið kæmi einn daginn hissa heim úr leikskólanum með þær fréttir að foreldrar besta vinar barnsins væru ekki listafólk. Barnið okkar mun alast upp við að bækur eftir pabba þess verða uppi í hillu og að það verði tekið með á foropnanir listasafna þegar mamma þess er með verk á sýningum. Það mun þekkja myndlista- og rithöfundavini foreldra sinna og kúltúrbörn þeirra. Það hefur í það minnsta nú, á sínu fyrsta ári, farið í fleiri foropnanir og útgáfuboð en ég gerði á mínum fyrstu tuttugu árum. Ef til vill mun það um tíma halda að skrifstofustörf, smíðavinna og kennsla sé bara eitthvað sem afar og ömmur sinna á meðan þau eru ekki að dekra við barnabörnin

Það á svo auðvitað eftir að koma í ljós hvort barnið þrói með sér áhuga á þessum menningarheimi sem við veitum því aðgang að. Við þekkjum að minnsta kosti of mikið af fólki í okkar geirum til þess að auglýsingar um rit- og myndlistarsmiðjur fyrir börn fari framhjá okkur. Barnið gæti þó hæglega erft eitthvað af mótþróa foreldra sinna og dregið okkur harkalega út fyrir þægindarammann og til vestmannaeyja á fótboltamót og gerst loks mannauðsstjóri eftir að hnémeiðsli koma í veg fyrir arðbæran atvinnumannaferil. Þá getur það mætt í mat til okkar á sunnudögum og spurt okkur hvenær við ætlum eiginlega að fá okkur alvöru vinnur. Hver veit?