Nú í desember eru fimm ár síðan ég lauk við ljóðabókaseríuna Tólf, þar sem ég gaf út ljóðabók mánaðarlega árið 2017. Það var heljarinnar vinna.

Fljótt fann ég mér takt þar sem spennan og streitan fóru stigmagnandi eftir því sem leið á mánuðinn. Í kringum tuttugasta leið mér allra jafna eins og ég væri ekki búinn að gera neitt, leit þá í minnisbækur og skrifaði upp í tölvu. Uppgötvaði að þetta var nú í það minnsta eitthvað. Við mánaðarlok fór ég að raða þessum ljóðum saman. Oft skeytti ég tveimur saman í eitt. Ég kenndi sjálfum mér á myndvinnsluforrit til þess að útbúa kápur og umbrotsforrit til þess að setja bækurnar upp. Síðustu endurskrifin áttu sér stað í umbrotinu, þar sem ég gat raðað ljóðum í opnur, séð hvað mér fannst passa með tilliti til takts. Oft þurfti ég að raða fram og til baka, sérstaklega þegar ég var með ljóð sem ég vildi hafa á heilli opnu og annað þurfti að raðast með tilliti til þess. Oft klippti ég út línur og ljóðahluta til þess að það betur í umbrot. Stundum endaði ljóð sem ég vildi ekki missa aftan á kápunni. Það hefur sína kosti að skáld brjóti sjálft um eigin ljóð.

En þetta var náttúrulega heilmikið vesen. Í lok hvers mánaðar kom „æ, fokk it“ um leið og ég ýtti á send. Það var alltaf léttir. Að senda á Hvítu Örkina, prentsmiðjuna í kjallara Hótels Reykjavík Natura. Ég tók svo yfirleitt fimmuna daginn eftir. Hún stoppar beint fyrir utan hótelið, fer eitt stopp í viðbót, að HR, og svo til baka. Yfirleitt náði ég sama vagni til baka með pakkanum með 48 bóka upplaginu. Nema þegar ég settist niður í kaffi með pabba, sem vann þá sem húsvörður hótelsins. Það voru notalegar stundir.

Álfheimar, sem kom út fyrir rúmu ári, er að mörgu leyti sjálfstætt framhald þessarar seríu. Framhald vinnunnar. Að hluta til einfaldlega vegna þess að árin 2018-2020 voru sjálfstætt framhald af árunum þar á undan. Kannski var Tólf vissar æfingarbúðir fyrir Álfheima. Hver þessara tólf ljóðabóka hverfist um eitt þema sem titillinn gefur til kynna. Álfheimar er flóknari, þar tvinnast fleiri þemu saman. Hún er að hluta til úrvinnsla á kulnunarástandi sem kom í kjölfarið ársins 2017. Ég þurfti á því að halda að vinna hægt og gefa mér tíma til þess að hugsa.

Mér þykir vænt um þessar litlu ljóðabækur. Þær eru fullkomlega ófullkomnar. Skrifaðar í flýti af innlifun. Það var ekki tími til þess að efast um of. Ekki tími til þess að hætta við. Ég myndi ekki beint mæla með því að fólk léki þetta eftir. Í það minnsta ekki í fullu meistaranámi með hlutastarfi og miklu félagslífi. En ég held að það sé ágætt að geta stundum sagt „æ, fokk it“.