Undanfarið hef ég verið að fá sjálfshjálparmyndbönd í meðmælunum á YouTube. Það er sennilega því ég hef horft á nokkur myndbönd hjá Wheezy Waiter þar sem hjón prufa eitt og annað sem gæti mögulega bætt líf þeirra í fyrirfram ákveðinn tíma. Að því loknu meta þau hvernig gekk og hvort þau muni halda þessu áfram að einhverju leyti. Þetta er yfirleitt eitthvað sniðugt eða forvitnilegt. Þau ákveða að ganga 1.000 skref á hverjum klukkutíma sem þau eru vakandi, fara í kaldar sturtur eða dansa í tuttugu mínútur á dag.

Mig minnir að fyrsta myndbandið sem ég horfði á, fyrir kannski mánuði síðan, hafi verið myndband þar sem þau töluðu um reynsalu sína af því að vera án áfengis í eitt ár. Mér fannst þetta forvitnilegt þar sem ég hef nú verið edrú í um það bil ár. Þau töluðu um þetta sem maður heyrir oft. Erfiðleikana til þess að byrja með en svo hvað svefninn batnaði og hvað þeim leið vel. Ég hef grínast með það að síðan ég hætti að drekka hef verið mun þreyttari, einbeitingin minni. Ég sef minna á nóttunni og svo framvegis og svo framvegis. Pönslænið er svo að ég hætti að drekka um mánuði áður en ég varð pabbi.

Alla vega. Ég hef verið að fá sjálfshjálparmyndbandameðmæli. Ég upplifi það sem visst feilspor. Eins og við algrímið séum dansfélagar að berjast um að vera í stjórn. Ég var búinn að ala upp í því vissa takta og hreyfingar. Margra klukkutíma myndbönd um tölvuleiki sem ég hafði ekki heyrt um með löngum útidúrum um æsku myndbandshöfundar og eðli fortíðarþrár og dauðans. Sudokumeistarar að kljást við nýstárlegar þrautir. Myndband sem útskýrir hvers vegna það er betra að nota duft en töflur í uppþvottavélar. Allt dansspor jafningja.

Nú birtast mér líka meðmæli um myndbönd sem útskýra, af titlunum að dæma, myndbönd sem útskýra fyrir mér allt sem ég hef verið að gera rangt í lífinu. Hvernig ég sofi vitlaust, sé ekki nógu duglegur, fresti hlutunum of mikið. Og þá hvernig ég geti lagað þetta.

Það hefur ríkt ákveðin mórölsk skylda um að fólk eigi almennt alltaf að vera að stefna í átt að hinu fagra. Að verða stöðugt liðugri, betur sofin og með fullkomnari húð. Það er ekki aðeins skylda fólks gagnvart sjálfu sér, sem eru nú einu sinni manneskjur og eiga því tilkall til sjálfsvirðingar og -ástar, heldur einnig gagnvart samfélaginu og fólkinu í kringum sig. En ég bara nenni þessu ekki.

Af einlægri sjálfsást, þessari sem vill manni allt það besta, færi ég mér frekar sex klukkutíma vidjóesseyju um Boku no Natsuyasumi með þvottinum, heldur en aðferðir til þess að afkasta meiru í dag en í gær.