Um daginn fór ég á útgáfuhóf fyrir bókina Snuð eftir Brynjólf Þorsteinsson, vin minn. Það var gaman að geta mætt. Þetta er eini svona viðburðurinn sem ég hef farið á þessi bókajól. Það er aðeins snúið að mæta klukkan fimm þegar barnið þarf helst að borða klukkan sex. En í þetta skiptið gerðum við bara kvöld úr þessu. Agnes hitti okkur í Eymundsson þar sem hófið var og svo fórum við þrjú út að borða sem fjölskylda. Það var ljúft. Þetta var fyrsta sinn sem við gerum það.

Það er gaman að geta mætt þegar vinir manns eru að gera eitthvað svona lagað. Gaman að lesa eftir vini sína, þó ég sé rétt búinn að opna Snuð. Ég veit ekki alveg hvernig það væri að lesa bókina án þess að þekkja höfundinn. Án þess að geta heyrt röddina eða séð fyrir sér glottið. Fyrir mér er bókin fyrirfram fyndin því Brynjólfur er fyndinn. Kannski er það bara styttri leið inn í húmorinn.

Nokkrum dögum seinna fór ég í fyrsta partíið eftir að ég varð pabbi. Sem var reyndar sama partí og síðasta partíið áður en ég varð pabbi. Jólapartí Benedikts, forlagsins míns. Það var eiginlega akkúrat það sem ég þurfti á að halda. Svona til þess að muna að ég er ekki bara pabbi, þó ég sé það kannski aðalega. Það var að minnsta kosti gott að gleyma sér um eina kvöldstund. Hvíla sig á því að hlusta og horfa eftir barninu og vera bara til.

Í þessum skrifuðu orðum pípti síminn til þess að láta vita að hrísgrjónin væru tilbúin. Barnið sefur úti og ég ætla að gefa því hrísgrjón með einhverju í hádegismat, þegar það vantar. Kannski bara smjörsteikt með baunum og einhverju grænmeti í ísskápnum. Ég er forvitinn að sjá hvernig ég haga dögunum eftir að barnið kemst á leikskóla, sem ég geri svo sem ekki ráð fyrir að verði fyrr en eftir sumar. Ég er kominn í ágæta þjálfun í að rumpa af nauðsynlegustu húsverkunum á góðum tíma til þess að geta nýtt sem mest af lúrunum í að ná áttum, hvílast, leika mér eða skrifa. Þó það fari ekki vel í hausinn á mér að fá þetta takmarkaða hvíld held ég að rútínan sé mér góð. Ef ég næ að halda henni gæti ég trúað því að ég nái að skrifa af meiri reglufestu heldur en áður en barnið fæddist.