Ég er enn að ná mér. Aftur að ná mér. Ég slappaðist aftur eftir að ég skrifaði hingað síðast. Núna er ég samt hress, þannig lagað.

Dagarnir eru orðnir strúktúraðir. Kaflaskiptir á skýrann hátt þar sem hver kafli er afmarkaður með lúr barnsins. Fyrst vöknum við, reynum kannski að þrjóskast við að liggja meðan barnið hamast í gluggatjöldunum eða skríður fram og til baka yfir okkur. Svo förum við fram og leikum. Borðum saman morgunmat. Agnes fer í skólann eða á bókasafn að sinna skólanum og við feðgarnir höngsum fram að fyrsta lúr. Á meðan á fyrsta lúr stendur næ ég að ganga frá eftir morgunmatinn, taka úr uppþvottavél og setja í þvottavél, eftir þörfum. Ég næ að taka leikföng upp af gólfi og svo get ég farið að sinna mínu. Ég spila kannski tölvuleik og skrifa ef ég hef orku til. Eftir fyrsta lúr er kjörtími fyrir feðgastúss. Þá er hægt að fara og gera eitthvað. Fara í búð með barnið í burðarpoka, sem því leiðist ekki. Fara á bókasafnið. Við höfum einu sinni farið í Fjölskylduland sem er kannski svolítið eins og leikskólaaðstaða þar sem foreldrar þurfa samt að vera til staðar í líkama og anda. Seinni lúr er svipaður og sá fyrri nema hann er almennt styttri. Agnes kemur oftast heim í eða stuttu eftir þennan lúr. Þá er tiltölulega stutt í kvöldmat og eftir hann líður tíminn einhvern veginn voða hratt fram að háttatíma. Þá er aðeins hægt að hangsa. Svo er allt endurtekið.

Nema helgarnar, þær eru alls konar.

Og já, nema þegar ég er slappur eins og undanfarið. Þá eru feðgastundirnar bara endalaust hangs heima. Við höfum til dæmis horft talsvert mikið á tónlistarmyndbönd. Teknó og önnur raftónlist er vinsæl en líka nýleg popptónlist. Það er svolítið eins og tónlistarmyndbönd hafi verið fundin upp fyrir ungabörn. Tónlistin ein og sér nær nokkuð vel til barnsins okkar, en myndböndin eru oftast litrík, það er aldrei dvalið lengi á neinu einu. Það er alltaf eitthvað að gerast. Ég held að uppáhaldsmyndband barnsins sé Uptown Funk með Bruno Mars. A.m.k. dillar það sér oftast vel þegar lagið fer í gang. Það er náttúrulega fjörugt og myndbandið sínir vinalega menn dansa með miklum töktum og svipbrigðum. Ég held persónulega meira upp á 90s teknómyndböndin þar sem einhver er á hlaupum undan skúrkum.

En núna þarf ég að fara að vekja barnið því við erum að fara niður í bæ á útgáfuhóf hjá Brynjólfi vini okkar, og svo út að borða. Kannski náum við að viðra eitthvað úr okkur vitleysuna.