Ég er að koma mér upp úr veikindum. Það er komin um það bil vika. Samkvæmt heimaprófinu í fyrradag er þetta að minnsta kosti ekki covid. Ég held ég verði allt í lagi á morgunn, jafnvel nógu hress til þess að fara eitthvað út á þriðjudaginn (í dag er sunnudagur). Agnes fór niður í bæ með barnið. Í gær fór hún með það í bröns, svo ég hef náð að hvíla mig. Ég tók samt smá tiltekt áðan og sit núna lokaður inni í skrifstofu / verðandi barnaherbergi / ruslakompu á meðan ryksuguvélmennið sér um sitt.

Vikan hefur að mestu farið í að hangsa heima, liggja upp í sófa á meðan barnið leggur sig og liggja á gólfinu á meðan hann leikur. Hann er tíu mánaða. Nógu gamall til þess að ég er hættur að skilja tímann. Eða. Ég er löngu hættur að skilja tímann en á stuttum foreldraferli mínum hafa nokkrar flækjur bæst við. Öll tímabil eru löng en þau gleymast jafnóðum. Síminn minn minnir mig reglulega á það hvernig barnið leit út fyrir þremur mánuðum, fyrir átta. Sýnir mér myndbönd af tímabilum þar sem mér fannst ég hafa náð tökum á því hvernig hann sefur á daginn, sem vörðu svo kannski bara tvær til þrjár vikur. Mér finnst vera ár og öld síðan ég fór með hann út úr húsi, á bókasafnið eða í búðina. Þegar ég verð hress ætla ég með hann í Fjölskylduland, sem var að opna í vikunni.

Ég er hægt og rólega að dýfa mér aftur ofan í skrif. Þetta blogg verður kannski liður í því. Ég hef ekki haft fókus í þau hingað til. Ég hafði það varla áður en hann fæddist. Árið 2017 gaf ég út 12 stuttar ljóðabækur. Ég skrifaði, braut um, hannaði 11 af kápunum. Árin eftir það eyddi ég í kulnun sem ég taldi vera þunglyndi. Ég skrifaði ljóðabókina Álfheima í algjörum rólegheitum frá 2018 til 2020. Síðan þá hef ég skrifað tvo ljóðagjörninga fyrir ljóðahátíðina Suttung, nokkur ljóð í ljóðahandrit og fáeinar efnisgreinar af prósa núna á síðustu tveimur vikum, aðalega til þess að koma mér í einhvers konar gír.

Mér finnst ég nefnilega núna nokkurn vegin hafa náð tökum á því hvernig barnið sefur á daginn. Ég er kominn með tiltölulega fljótlega þrifarútínu sem ég get framkvæmt um leið og ég kem inn og svo komið mér í að gera eitthvað fyrir mig. Á góðum degi ætti ég að ná í kringum tveimur klukkutímum fyrir sjálfan mig. Og ég ætti að geta nýtt hluta þess tíma í skrifin. Og svo af meira afli þegar barnið kemst inn í leikskóla, hvenær sem það svo verður.